Pulsusalarnir og Vélmennin

föstudagur, júlí 29, 2005

Partý

Í tilefni þess að við erum að yfirgefa klakann ætlum við að halda smá kveðjuhóf heima hjá Sigurði föstudaginn 12 ágúst næstkomandi. Tímasetning verður auglýst síðar.
Ef þið hafið áhuga takið þá kvöldið frá.

Fyrir þau ykkar sem búið niðri í bæ og hafið aldrei farið svona langt að heiman:
Þá er þetta í Reykjavík og alls ekki svo langt ferðalag, það þarf ekki að pakka né taka frí í vinnu til að komast á réttum tíma.

kv. Arna og Sigurður

P.s. Það væri gott ef þið kommentuðuð hvort þið eruð líkleg til að mæta eða ekki.

fimmtudagur, júlí 28, 2005

Bandý, bandý, bandý!

Nú er fimmtudagur, og þið vitið hvað það þýðir.
Jú, ég ætla að pirra alla með því að minna á bandý í kvöld klukkan 9.

Annars er ég forvitin að vita hvort fólk ætlar ekki að mæta vegna versló og svoleiðis.

Be there or be a rectangular thing!

Kveðja
Bandý bjössi

miðvikudagur, júlí 27, 2005

Fréttaskot úr OR húsinu!

Eins og flestir vita sem hafa komið í vísindaferð til OR þá er staðsettur í miðrými hússins Focault pendúll. Ari Ólafsson eðlisfræðigúru hafði umsjón með að setja hann upp og gerði það í samstarfi við einhvern listamann sem hefur eflaust fengið hugmyndina en ekki vitað hvernig eðlisfræðin á bakvið svona apparat virkar. Nú fleiri vita eftir að hafa verið í aflfræði hjá Halldóri Björnssyni að pendúllinn nær ekki að halda fullu útslagi, því það verður dempun, án þess að vera knúinn áfram á einhvern hátt. Þess vegna er staðsett apparat efst sem knýr strenginn áfram þannig að pendúllinn getur náð fullu útslagi (ég vona að ég sé ekki að bulla hérna, þið leiðréttið mig þá bara). Af hverju er ég að segja ykkur þetta? Jú vegna þess að áðan þegar ég átti leið mína framhjá pendúlnum tók ég eftir því að pendúllinn var ekki að ná fullu útslagi. Ekki náðist í Ara Ólafsson til að spyrja hann út í hvað væri í gangi með pendúlinn en undirritaður telur að apparatið sem knýr pendúlinn áfram sé bilaður og pendúllinn sýni þess vegna þessa dempun sem ég ræddi um í upphafi. Áfram verður fylgst með þessu og má búast við frekari fréttum þegar fleiri upplýsingum hefur verið aflað.


Svona að öllu gamni slepptu þá langaði mig líka að segja ykkur frá hvað var gert í hádeginu hérna. Á matseðli vikunnar var búið að auglýsa að það yrði soðin ýsa með lauksmjöri í dag, en svo kom tilkynning að sökum veðurblíðu hefði verið ákveðið að bjóða upp á grillmat og ís. Var boðið upp á fínasta lambakjöt, salat, bakaða kartöflur og sósur, ásamt gosi (sem gerist mjög sjaldan hér). Þó svo þetta sé snilld að þá var mesta snilldin að fólk tók sig til og náði í borð úr matsalnum og fór með út enda kjörið að borða góðan mat og worka tanið í leiðinni. OR og kokkarnir fá mikið hrós fyrir þetta og að lokum læt ég hér fylgja með mynd sem var tekin og sýnir aðstæður.

Kveðja,
Óttar

þriðjudagur, júlí 26, 2005

Heitasti staðurinn um versló

Einhver spurði hvað menn ætluðu að gera um verslunarmannahelgina. Ég vil benda þeim sem ekki vita hvað þeir ætla að gera að hin árlega útihátíð Halló Beggi fer fram í fyrsta og hugsanlega eina skiptið um helgina. Hátíðin verður haldin í sól og blíðu í huggulegu hverfi í útjaðri Akureyrar. Dagskrá hefur ekki verið ákveðin endanlega en allavegana verður eldur í grillinu alla helgina og aldrei að vita nema hressir trúbadorar troði upp með fallegu gítarspili. Heyrst hefur að Nói ofurköttur sé að æfa nýtt atriði sem hann ætlar að frumsýna um helgina. Fregnir herma að Herra Svalur verði á svæðinu og nær svalleiki hans víst hámarki á miðnætti á laugardeginum. Einungis örfáir boðsmiðar eru eftir. Þeir sem ekki vilja missa af þessu einstaka tækifæri ættu því næla sér í slíkan hið snarasta á bergurbe@hi.is eða í commentakerfinu hér að neðan. Þeir sem ekki ná miða geta þá bara farið á hina hátíðina sem ég verð með, en hún var reyndar meira hugsuð fyrir fjölskyldufólk.

Kveðja,
Bergur

Versló

Hvað ætla verkfræðlingar að gera um Versló? Það virðist vera að spáð sé rigningu og roki víðast hvar á landinu þannig að maður er svolítið að spá í hvað maður eigi að gera af sér þessa helgi. Tillögur vel þegnar takk.

LÍN

Þannig er mál með vexti að ég þurfti að hringja í lín til að forvitnast um það hvort ég ætti að láta skuldbreyta lánum hjá mér. Ég fékk samband við einhverja konu og hún svona nokkurn veginn gat svarað því sem mig vantaði að vita. Svo vildi ég aðeins fá að vita varðandi reiknivélina á síðunni þeirra þar sem maður getur fundið út hvað eru margir afborgunardagar og hér á eftir fer samtal mitt við konuna:

ég: " Mig langaði líka aðeins að vita um reiknivélina á netinu varðandi afborgun R/G lána"

lín kelling: "oh my god, þarf ég að útskýra allt fyrir þér"

ég svona nokkuð undrandi á þessu svari hennar: "nei mig bara vantaði að vita hvað þetta fjármagnstekjur eru"

lín kelling: "veistu ekki hvað fjármagnstekjur eru?, það er arður af hlutabréfum og skuldabréfum"
svo kom eitthvað bla bla bla
og svo sagði hún " þú veist kannski áttu skuldabréf í flugleiðum eða whatever ég veit það ekki"

ég verð nú bara að segja fyrir mitt leyti að ég varð móðgaður á þessari "þjónustulund" lín kellingarinnar og kvaddi snarlega.

kv,
Óttar

Sumarið

Hæ, hæ
Ég vil þakka fyrir skemmtilegt myndakvöld á föstudaginn og það var leiðinlegt að missa af Sing-starinu, það var greinilega mikið stuð.
Ég ætlaði aðeins að segja frá því hvað ég er að gera í sumar. Ég er að vinna hjá Umhverfisstofnun og er að vinna í gæðahandbók fyrir þá og minn helsti félagi í sumar er ISO 9001:2000 staðallinn. Maður er greinilega ekki vanur vinnuhraðanum hjá ríkinu því ég kláraði verkefnið mitt ca. mánuði of fljótt, ég hefði greinilega átt að tala við DÖ og láta hann kenna mér hvernig maður á að slaka á í vinnunni.



Annars er maður bara að reyna að worka tanið, spila golf og hugsa um að hlaupa af sér allt ruslfæðið sem Ingi lét mann éta í USA. Svo er ég að fara í mastersnám hinum megin við suðurgötuna í fjármálum í haust sem byrjar reyndar bara eftir rúma viku.
Kveðja,
Tryggvi

laugardagur, júlí 23, 2005

Snilldar myndakvöld

Ég vildi bara þakka fyrir snilldar myndakvöld. Það hefðu fleiri mátt mæta en það var mjög góðmennt þarna. Addi Pimp fær mikið hrós fyrir að leyfa okkur að halda þetta þarna og fyrir afnot af grilli. Svo er stefnan sett á að setja myndirnar á eitthvað svæði þar sem allir geta náð í þær og linkurinn verður settur þá hér inn á síðuna.

Að lokum vil ég segja að það uppgötvaðist í gær afhverju Addi fer alltaf á Kaffibarinn. Þegar labbað er beinustu leið niður í bæ frá Adda er fyrsti staðurinn sem komið er að, Kaffibarinn og þeir eru farnir að þekkja að þarna er mr. big spender á ferð þannig að hann er orðinn vip kúnni, svo hann komist fyrr inn og fari að eyða.

Kveðja,
Óttar

föstudagur, júlí 22, 2005

Who would have thought!

Haldiði ekki að kokkurinn hafi bara svarað. Hérna er bréfið sem ég sendi og svarið frá honum ég bara verð að deila þessu með ykkur.
Nú vil ég bara fá að vita hvenær við viljum halda partýið. Ég myndi segja að það yrði að gerast mjög fljótlega þ.e. ef við viljum ennþá halda það eftir allt saman.

Sæl Arna.
Afsakaðu að ég hef ekki svarað þér en ég er búinn að vera í fríi,
Hvaða dagar koma til greina hjá ykkur svo ég geti fundið eitthvað laust..
Hvað verðið þið cirka mörg...
Þetta verður ekkert mál, bara spurning um að finna dags.
Mbk
Axel Óskarsson

-----Original Message-----
From: Arna Lind Sigurðardóttir [mailto:arnasi@hi.is]
Sent: 22. júlí 2005 09:16
To: axel@kokkuranbumbu.is
Subject: v/ Iðusalar

Sæll Axel,
Arna heiti ég og er verkfræðinemi. Þú lofaðir okkur Iðusalnum eftir
kennarafagnaðinn sem var í janúar.
Nú fer að líða að lokum sumars og þar sem við vorum öll að útskrifast fer
fólk að týnast úr landi. Það var ástæðan fyrir því að ég vildi panta
salinn í sumar.
Þannig að ef þú ætlar að standa við orð þín þá vil ég endilega fara að
heyra frá þér sem allra fyrst. Því eins og ég segi þá mun þetta annars
detta upp fyrir og þá stöndum við eftir mjög ósátt við þinn hluta
samkomulagsins.
Með fyrirfram þökk,
kv. Arna

Bandýsnilld!

Ég vil bara þakka fyrir frábæran bandýleik í gærkvöldi! Ég hélt á tímabili Addi, að þér hefði tekist að drepa okkur öll úr ofhreyfingu en við lifðum þetta öll af og ísinn var góður.

Kveðja,
Hidda

p.s. Hvað er málið með að veðrið sé svona geðveikt þegar maður þarf að sitja inni og vinna?!

p.p.s. Hlakka til að sjá ykkur í kvöld...

Bumbulíus fær síðustu viðvörun

Hæ, ég var að senda á kokkinn okkar í síðasta skipti og sagði honum að ef hann ætlaði að standa við orð sín þyrfti ég að heyra frá honum sem allra fyrst. Sagði honum að annars yrði ekkert úr þessu og að eftir stæðum við ósátt við hans hluta samkomulagsins.

Þannig að nú skulum við sjá hvort hann svari í næstu viku og hvort við getum haft partýið þá í ágúst eftir verslunarmannahelgi. Finnst það ólíklegt en við skulum sjá.

kv. Arna

Grill, myndakvöld og partý

Vil bara minna á myndakvöld/partý og núna /grill. Já þeir sem vilja grilla geta mætt um 7 leytið hjá aðalpimpinum, Adda, og grillað eitthvað juicy. Sjáumst þar.

Kveðja,
Óttar

fimmtudagur, júlí 21, 2005

Hej hej, hvordan går det??

Sælt veri fólkið.
Það er sumar og þá er nóg að gera. Fyrir utan að vinna þarf maður auðvitað að fara í útilegur, halda sambandi við vinina (sem maður er ekkert allt of duglegur að hitta á veturna) fara í allar sundlaugar bæjarins, hjóla um bæinn og allt hitt.
Ég er að vinna hjá VGK eins og Magga sagði ykkur, ég er aðallega að teikna í Inventor og AutoCad og það er fínt. Er reyndar ekki viss um að ég vilji vinna svona vinnu í framtíðinni. Ég myndi vilja hafa meiri samskipti við fólk. Hérna sitja flestir í sínu horni í sinni tölvu og vinna að einhverjum verkefnum, kannski er það þannig á flestum stöðum.
Við Tryggvi erum á leiðinni til Danmerkur í haust, nánar tiltekið 19 águst klukkan 15:30. Þar ætlum við að stunda nám við DTU eins og nokkrir aðrir. Við erum búin að fá íbúð á POP kollegiinu sem er í Lyngby, nokkra km frá skólanum. Íbúðin er á tveimur hæðum og krakkarnir sem búa þar núna bjuggu til svefnloft á efrihæðinni hjá sér og við ætlum að taka við þvi þannig að í raun erum við að fara að flytja í 3. hæða íbúð :). Við erum að borga leigu frá 1. águst og það er pínu svekkjandi að vera ekki að fara út þá. En ætli maður hafi ekki gott af því að vinna og safna smá pening áður en maður fer.
Seinustu helgi fór ég í Rafting í Jökulsá Austari. Það var ótrúlega skemmtilegt, svolítið scary á tíma þegar Tryggvi dat út í og var komin lengst niður ána á undan okkur, ég verð að viðurkenna að ég var orðin ansi hrædd um hann en hann bjargaðist alveg, var bara búin að rífa þurgallan sinn þegar við náðum honum loksins upp úr svo hann varð ansi blautur.
Hvað ætlið þið að gera um verslunarmannahelgina??
Ég veit ekki hvað ég ætla að gera, allar hugmyndir vel þegnar.

Ef þið komið til Kaupmannahafnar þá verðið endilega að kíkja í heimsókn,
heimilisfangið er:
Haraldlundsvej 38, lejlighed 215
2800 Lyngby
Danmark
Ég er komin með nýtt e-mail
thorhildur.thorkelsdottir@gmail.com

Hlakka til að sjá ykkur í BANDÝ í kvöld og í party hja Adda á morgun

Þórhildur

miðvikudagur, júlí 20, 2005

Hæbbs

Hæ, ég er að vinna á Almennu verkfræðistofunni sem er fínt. Það má víst ekki tjá sig mikið um hvað þar fer fram eins og á fleiri vinnustöðum svo að ég ætla ekki að hætta starfsframa mínum með því. Maður reynir að skreppa norður eins oft og maður getur og í einni slíkri ferð tók ég nokkrar myndir af öðrum kettinum okkar í nettu flippi

http://www.dyraland.is/dyr/23090/album/

Annars sjáumst við bara hress hjá Adda pimp á föstudagskvöldið



Kveðja,
Bergur

þriðjudagur, júlí 19, 2005

Kannast einhver við þessa senu??


Jamm það var gaman á Dóminíska, datt í hug að senda þessa inn svo til að minnast skemmtilegra atvika og öðruvísi mannlífs á Dóminíska :-)

Kv.
EBE

mánudagur, júlí 18, 2005

Myndakvöld og bandý

Ég var að tala við Matlab-Arnar einnig þekktur sem Bandý-Bjössi um það hvort hægt væri að halda myndakvöld í þriðja árs stofunni. Hann taldi svo ekki vera þar sem húsvörðurinn er orðinn svarinn óvinur þeirra Dabba og myndi eflaust setja út á það fengi fólk sér bjór (sem ég myndi halda að fólk myndi gera). Hann kom því með þeim mun betri hugmynd um að halda þetta heima hjá sér, hann býr rétt hjá Kvennó, á föstudaginn og þá væri hægt að hafa myndakvöld og tjútt. En hann vildi minni á að þá gildi "þröngt mega sáttir sitja". Þ.a. með þessum pósti er ég að athuga hvernig stemmning er fyrir því að halda myndakvöld og tjútt á föstudaginn heima hjá honum? Endilega kommentið hvort þið gætuð komið.
Varðandi myndirnar þá velur fólk 20 bestu myndirnar hjá sér, kemur til Adda og hann hefur lappann tengdan við sjónvarpið.

Að lokum vil ég einnig minna á bandýið á fimmtudaginn klukkan 9.

Kveðja,
Óttar

Mæli með Madagascar

Sæl og blessuð!

Ég fór í bíó í gær með bræðrum mínum. Sá litli er 9 ára svo Madagascar varð fyrir valinu. Hún var bara þrælfín svo ég skora á þá sem eiga lítil systkyni að drífa sig í bíó með þeim. Við fórum á íslenskt tal og mér fannst það ekkert skemma fyrir þó svo enskt sé örugglega skemmtilegra.

Ég var að komast að því að ég þarf að kynna verkefnið mitt (sem ég var að klára hérna í orkuveitunni) í stóra fundarsalnum þar sem fyrirlestrarnir í vísindaferðunum voru haldnir. Þetta verður víst opið fyrir alla. Get nú ekki sagt að ég hlakki til.

Eitt sem ég ætlaði líka að koma á framfæri fyrst ég er nú að þessu á annað borð að þá hef ég ekkert heyrt frá elsku kokkinum okkar. Ég efast stórlega um að ég eigi eftir að gera það þrátt fyrir nokkrar ítrekanir í tölvupósti. Þannig að spurningin er bara hvort við eigum ekki bara að senda honum póst svona í lok sumars og lýsa yfir óánægju okkar gagnvart honum. Láta hann heyra það að orð hans hafi verið innantóm og framkoma óásættanleg.

Arna

laugardagur, júlí 16, 2005

Jæja krakkar!

Hvernig er það, ætlið þið ekkert að fara að blogga?!

Það væri svo gaman ef þessi síða kæmist almennilega af stað...

Til að gera þetta aðeins persónulegra og skemmtilegra datt mér í hug að setja inn link af videói með nýju systur minni sem fósturpabbi minn var að ættleiða frá Kína og kemur heim til Íslands 20. júlí. Við erum að komast betur og betur að því hvað henni finnst fyndið. Ég get ekki beðið eftir að hitta hana!

http://homepage.mac.com/styrmirsigurdsson/sunnaherborg/iMovieTheater15.html

Ef þetta fær ykkur ekki til að brosa þá eruð þið með hjarta úr steini. Steini segi ég...

Kær kveðja á gráum laugardegi,
Hidda

föstudagur, júlí 15, 2005

Sumarið eða þannig!

Sæl öllsömul,
ég er að vinna hjá VGK, aftur, í sumar við ýmislegt smálegt. Mjög gaman samt að Tótla situr hérna við hliðina á mér og Hidda er hjá Enex á efri hæðinni. Svo við hittumst heilmikið.

Þetta er frekar skrýtið sumar þar sem ég kom heim 3.júní og síðan var útskriftin svo að mér fannst ég ekki búin í skólanum fyrr en þá. Svo byrja ég aftur í skólanum 2.ágúst! Stutt sumar hjá mér. Málið er að ég mun fara í undirbúningsnámskeið fyrir meistaranám í hagfræði sem ég ætla í í haust. Ætla að taka nokkra kúrsa og vinna með hér hjá VGK og mun líklega fá stærri verkefni í vetur.
Þannig munu næstu tvö árin vera hjá mér, meðan ég bíð eftir að Jónsi klári, en síðan er stefnan tekin eitthvert út í masterinn í verkfræði. Vil endilega heyra hvernig fólki líkar í hinum ýmsustu löndum :)

Kveðja, Magga

Danskurinn segir: Það er erfitt að vera verkfræðingur

samkvæmt frétt berlingske

http://www.berlingske.dk/grid/business/artikel:aid=601598

góðar stundir

fimmtudagur, júlí 14, 2005

Sælar

Var að bæta við tveimur linkum á síðuna, annars vegar blogg sem umbygg krakkarnir eru með og hinsvegar myndasíða Svenna en eins og fólk man eftir þá var enginn óhultur fyrir Svenna í ferðinni og þá sérstaklega ekki Kúlíó.

Svo ef fólk vill koma einhverjum link á framfæri, þá er bara um að gera að kommenta og ég mixa þetta.

Kveðja,
Óttar

Hæ hæ

Jæja (í fyrst sinn sem ég skrifa blogg!)
Ég er að vinna á Línuhönnun í sumar og þar er mjög gaman. Hér er fullt af hressu og skemmtilegu fólki og heill hellingur af sumarstarfsmönnum (ég held við nálgumst 20). Þennan stutta tíma sem ég hef unnið hér hef ég komist að því að allt er mjög mikið leyndarmál svo ég sleppi því að segja ykkur hvað ég er að vinna við;) Ég get hins vegar sagt ykkur að ég hef lesið texta á hinum ýmsu tungumálum: íslensku, ensku, þýsku, dönsku, norsku, færeysku og rússnesku (verð reyndar að játa að ég gafst strax upp á því:)).

Svo var ég einmitt að panta flugmiðann út áðan. Ég fer út 5. september og svo var alveg 40þús kr ódýrara að kaupa miða aftur heim svo ég kem heim í jólafrí 12. des (held ég hafi aldrei byrjað svona snemma í jólafríi)

Skora á fleiri að skrifa!!!

Halló

Halló allir.

Mér líst rosa vel á þetta framlag hérna en við verðum samt að vera duglegri að skrifa.
Ég er að vinna hjá Orkuveitu Reykjavíkur í sumar og var að klára sumarverkefnið mitt. Þannig að nú er ég að fara að byrja á næsta verkefni. Sumarverkefnið gekk út á það að athuga hvort hagkvæmt sé að koma upp hitaveitu Undir Eyjafjöllum og veita svo heitt vatn þarna um sveitina í Landeyjar og Fljótshlíð. Ég er búin að komast að því að það er ekki hagkvæmt.
Er svo ekki alveg komin inn í næsta verkefni en það verður um hitaveitur í Bláskógabyggð. Það verður svona hagkvæmnisathugun líka.
Svo er bara stefnan sett á USA eftir rúman mánuð. Þetta gerist svo hratt finnst við vera nýkomin úr ferðinni og svo er maður bara að fara aftur og sumarið búið.
Jæja ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni.

kv. Arna

þriðjudagur, júlí 12, 2005

Vinnan

Jæja það er flott að vera komin með eitthvað svona í gang og MSN dæmið var sniðugt líka.

Svo ég segi örstutt frá minni vinnu þá var ég fengin til að endurskipuleggja álestur í hverfum Orkuveitu Reykjavíkur. Nú álestur reyndist bara vera í hinu besta lagi og þurfti ekki mikið að endurskipuleggja þannig að vinna mín í þessu verkefni, sem ég er búinn með, fólst aðallega í því að búa til svona möppu þar sem allar upplýsingar sem deildin þarf að hafa er í, má þar nefna heiti gata í hverfi, fjöldi mæla í því hverfi og fjöldi mæla í heild, excel vinna í raun.
Svo í gær var ég að byrja í nýju verkefni og þá fyrir hina svokölluðu fjórðu veitu. Fjórða veitan sér um ljósleiðaravæðingu og mitt verkefni er t.d. að teikna skýringarmyndir í Visio fyrir skilgreiningarskjal sem er verið að búa til um þetta allt og svo á ég að finna út hvernig skuli merkja ljósleiðara þannig að auðvelt sé að fylgjast með hver á hvaða ljósleiðara eða eitthvað í þá veruna. Þannig að þetta er svolítið frumkvöðlastarf sem er ekki leiðinlegt.

Svo í haust er stefnan sett á DTU og að klára BSc. þar.

Kveðja,
Óttar

Gaman gaman

Mér líst ótrúlega vel á þetta! Það er líka mjög gaman hvað þið hafið tekið vel í msn dótið. Ég er komin með rosalega marga nýja inn hjá mér. Gaman gaman.

Í sumar og næsta vetur er ég að vinna hjá fyrirtæki sem heitir Enex hf. Það er í eigu Landsvirkjunar, Orkuveitu Rvk, Hitaveitu Suðurnesja, Jarðborana, einhverja verkfræðistofa og fleiri og sérhæfir sig í að flytja út jarðvarmaþekkingu Íslendinga til útlanda. Við erum að fara að byggja virkjun í El Salvador, við eigum dótturfyrirtæki í Kína, USA og Þýskalandi, erum að gera eitthvað í Ungverjalandi og svona mætti lengi telja. Ég er afskaplega ánægð í vinnunni. Fæ eitthvað að gæðastjórnast, skrifa skýrslur, gera kostnaðarmöt og sitja á símafundum...

Hlakka til að heyra hvað þið eruð að gera,
Kveðja,
Hidda

Frábært framtak

Flott hjá þér Óttar, fín síða. Við verðum svo að vera dugleg að skrifa hérna. Það er spurning að allir setji inn frétt hvað þeir eru að gera í sumar. Ég skal byrja, Ég er að vinna í AirAtlanta í sumar. Nýlega sameinuðust tvö fyrirtæki íslandsflug og Atlanta í AirAtlanta Icelandic, núna eru stjórnendur flugrekstrarsviðs að reyna prófa sig áfram hvernig er best að reka þessi félög saman. Mitt starf í sumar er að kafa ofan í hvernig staðan í ýmsum málum eins og t.d. ráðning og þjálfun flugmanna. Svo að búa til verkferla og skipulag og finna leiðir til þess að láta það virka innan deildar. Semsagt skipuleggja, og eins og þið sem þekkið mig vel vitið þá er það uppáhaldsiðjan mín ;)
Alla veganna þá ætla ég að gera þetta í sumar og fara í masterinn í haust hérna heima þar sem Palli Jens verður umsjónarkennarinn minn.
Jæja ég ætla ekki láta þetta verða lengra en skora á alla sem skoða síðuna að skrifa eitthvað aðeins um sumarið sitt.
MSN netfangið mitt er það sama og hi-adressan, huldahal@hi.is

Bestu Kveðjur, Hulda

Velkomin

Jæja þá er komin upp svona síða þar sem við getum látið vita hvað er í gangi hjá okkur hverju sinni, t.d. allir þeir sem eru að fara út og þessháttar. Einnig verður vonandi hægt að nýta þessa síðu sem svona portal fyrir okkur öll til að halda sambandi við hvert annað. Upplýsingar um það hvernig eigi að setja inn póst hérna hafa verið sendar til ykkar og endilega kommentið ef þið vitið um blogsíður eða heimasíður sem ykkur finnst vanta í tenglasafnið.

Kveðja,
Óttar