Pulsusalarnir og Vélmennin

miðvikudagur, október 26, 2005

Partý

Er ekki kominn tími á partý? Þar sem Bs-inn er nú í höfn hef ég ákveðið að vera með smá teiti næstkomandi laugardagskvöld. Ég vonast eftir betri mætingu en á Halló Beggi í sumar, það þarf bara einn til. Nú þýðir ekkert að kvarta undan því að það sé svo langt, bý í 101 og stutt í bæinn. Blóm og kransar vel þegnir.

Kveðja,
Bergur

þriðjudagur, október 25, 2005

Bandý

Bandý kl. 22:00 í Fífunni!

BB

sunnudagur, október 23, 2005

Pínu plögg


miðvikudagur, október 19, 2005

Eftirlit

Það eru margir sem eiga eftir að deila með okkur fimm tilgangslausum hlutum um sjálfa sig. T.d. eiga:
Jón Atli,
Hulda,
Hrafn,
Einar Eiðs,
Kúlíó,
Sven,
Davíð Örn
öll eftir að skrifa.

Eftirlitið.

miðvikudagur, október 12, 2005

Bunni G

Hér koma fimm súkkulaðimolar um mig

Ég og frændi minn vorum skírðir saman, Gunnar Birnir og Gunnar Sigvaldi, einhverjum datt þá í hug að sniðugt væri að kalla okkur Gú Binna og Gú Silla og hélst sú nafngift allt allt allt of lengi.

"My first taste of fame" kom strax á unga aldri. Tekin var mynd af mér og henni dreift á alla leikskóla á höfuðborgarsvæðinu til að auglýsa dagvist barna eða e-ð. Á þessari mynd skarta ég þessu líka fína tagli (80´s) og er að mála með vinstri hendinni. Eftir þessa auglýsingaherferð fannst mér ég hafa toppað og hef því látið módelbransann eiga sig síðan þá. Það voru gerð samskonar plaggöt með einum eða tveimur öðrum krökkum og ég held að annað þeirra gæti hugsanlega lesið þetta blogg (þó ekki alveg viss).

Þegar ég var fimm ára plataði ég einhvern leikskólafélaga minn til að strjúka með mér af leikskólanum. Förinni var heitið heim til mín, a.m.k. kílómetra frá leikskólanum!! Þegar þangað kom kommst ég að því mér til mikilla vonbrigða að enginn var heima, hélt að mamma væri bara að chilla heima á daginn. Til að toppa þessa fýluferð komst ég að því þegar við komum aftur á leikskólann að einhver hafði átt afmæli og ég fékk enga köku því ég var svo óþekkur.

Þegar ég var lítill var ég alltaf burstaklipptur, þetta er eftir að taglið var látið fjúka (90´s). Mér líkaði þó aldrei vel við klippinguna en þar sem ég hélt að burstaklipping þýddi að hárin væru burstuð af hálsi og öxlum eftir klippinguna lét ég það vera. Það var ekki fyrr en ég bað um að fá burstaklippingu nema með hárið síðara sem merking orðsins var útskýrð fyrir mér. Ég hef því þurft að nota undanfarin ár í að ná upp meðallengd hárs míns.

Fyrir ca. 2 árum vatt Friðrik Þór Friðriksson sér upp að mér. Þetta kvöld var ég aldrei þessu vant bara nokkuð góður á því, það sama verður ekki sagt um Friðrik. Hann heilsaði mér og spurði mig hvað ég væri að gera þessa dagana. Þegar ég sagði honum að ég væri nú bara að læra verkfræði tilkynnti hann mér að það væri tóm vitleysa, ég ætti heima í kvikmyndum. Ég var náttúrulega svolítið upp með mér og spurði hann hvort hann gæti þá ekki hjálpað mér eitthvað í þeim efnum. Hann varð þá mjög skrítinn á svipinn, leit á úrið sitt og sagðist þurfa á þjóta. Ég hef ekki séð hann síðan og var þetta því upphafið og endirinn á kvikmyndaferli mínum.

Að lokum væri gaman að klukka Jón Fatla og Krónprinsinn, hann Valíant okkar.

Kærlig hilsen
Gunni

þriðjudagur, október 11, 2005

Klukkið hans Sigurðar, S.afa, Geddusnyrtis, Sigga gítars, Kalkúns o.m.fl

1. Ég safnaði eggjum á mínum yngri árum og á stórt eggjasafn heima. Hef nú ekki bætt neinu í safnið síðustu 7-8 árin en það býður betri tíma að halda áfram með þetta og ná markmiðinu sem er að eiga egg frá öllum íslensku fuglunum.
2. Ég er með boltafælni á háu stigi. Hef aldrei nennt að spila neinar íþróttir þar sem boltar koma við sögu. Ég gerði eitt sinn heiðarlega tilraun til að fá einhvern áhuga á þessu og fór að spila fótbolta. Þetta varð ekki langur ferill og fara engar frægðarsögur af honum. Ég reyndi svo aftur þegar ég fluttu í bæinn en þá í handbolta sá ferill varð enn þá styttri. Hef ég haldið mig frá tuðru íþróttum síðan
3. Ég er veiðisjúkur, ég er svo veiðisjúkur að ég myndi missa af mínu eigin brúðkaupi ef það væri von á góðu morgunflugi einhversstaðar. Mér finnst að það eigi allir að vorkenna mér því nú er rjúpan að byrja og ég missi af öllu gamaninu.
4. Ég hef nú aldrei fengið ber upp í eyrun en ég tók einu sinni chilli pipar í nefið, af hverju verðu ekki útskýrt hér. Mæli ekki með því nema þið hafið gaman af því að hnerra ég hætti nefnilega ekki að hnerra fyrr en hvert einasta snifsi var komið út og það tók dágóða stund.
5. Ég þoli ekki ameríska yfirborðs kurteisi. Af hverju þarf einhver maður sem ég hef aldrei séð og mun aldrei sjá aftur að spyrja mig hvernig ég hafi það þegar ég tek sömu lyftu og hann. Getur einhver sagt mér það.


Ég klukka Gunna B, og Ásdísi

mánudagur, október 10, 2005

Klukkið hennar Örnu

Hérna koma fimm staðreyndir um mig.

1. Ég hef alltaf verið mjög nákvæm og akkúrat. Þegar ég var lítil gerði ég mömmu stundum alveg gráhærða þegar við vorum á leiðinni eitthvað út. Ég þurfti sko ALLTAF að hafa sokkana mína alveg hnífjafna. Þannig að ég settist á gólfið og togaði þá eins langt upp á sköflunginn eins og ég gat. Stóð svo upp og mældi. Ef þeir voru ekki jafnir þá settist ég aftur og reyndi aftur. Þetta gat sko alveg tekið dágóðan tíma því eins og ég segi þá fór ég ekki út fyrr en sokkarnir voru HNÍFJAFNIR.
2. Mér fannst ekkert gaman að fara í leikskólann þegar ég var lítil. Mér fannst miklu skemmtilegra að fara bara í pössun til ömmu og leika mér þar í barbí. Það var nefnilega ekkert til eins flott og mikið barbídót á leikskólanum eins og ég átti. Þannig að ég tók upp á því að æla á morgnana áður en ég átti að fara í leikskólann til að þykjast vera veik og þá fór mamma með mig til ömmu.
3. Ég er með kaupæði. Ef mig vantar ekki eitthvað nauðsynlega þá finn ég mér eitthvað sem mig vantar. T.d. ef ég ákveð að mig vanti buxur sem gerist MJÖG oft þá er farið í bæinn og leitað. Oftar en ekki þá finn ég ekki akkúrat það sem ég er að leita að svo ég finn mér bara eitthvað annað eins og skó. Ég sé einhverja geðveika skó sem mig langar alveg ógeðslega mikið í en ákveð að mig vanti ekki því ég var upphaflega að leita mér að buxum. Leitin að buxunum heldur áfram og að lokum finn ég einhverjar buxur til að kaupa. Ég get samt ekki hætt að hugsa um skóna og sef varla því mig langar svo mikið í þá. Hugsa um þá í svona viku þangað til ég er búin að sannfæra sjálfan mig um það að mig virkilega vanti skó (og þá er ég búin að gleyma hversu mikið buxurnar kostuðu) þannig að ég fer og kaupi skóna. Hrikalega sátt.
4. Ég truflaðist úr hræðslu í hvert skipti sem myndbandið Thriller með Michael Jackson var sýnt í sjónvarpinu fyrir svona 15 árum síðan. Ég gat aldrei horft á það. Mér fannst svoooo ógeðslegt þegar hann breyttist allt í einu í úlf. Þegar hann varð loðinn og eyrun stækkuðu....oj ég fæ alveg hroll
5. Ég þoli engin ljós þegar ég er að fara að sofa. T.d. ef ég var að horfa á sjónvarpið upp í rúmi og það er ekki búið að slökkva alveg á því heldur bara með fjarstýringu þá logar smá ljós á því. Þetta þoli ég ekki og get ekki sofnað fyrr en það er búið að slökkva það. Samt get ég sofnað fyrir framan sjónvarpið.

Þá ætla ég að klukka Tryggvana tvo.

kv. Arna

Bandý

function BandyKlukk(Bandy, Klukk)

if (Bandy == 1) && (Klukk == 0)
fprintf(bandy.txt);
else
fprintf(klukk.txt);
end

>>BandyKlukk(1,0)
Það væri fínt ef fleiri gætu séð sér fært að mæta í Bandý á þriðjudagskvöldum. Sjáumst hress í Fífunni annað kvöld kl. 22:00.

>>BandyKlukk(0,1)
Klukk er kúl.

Takkogbæ,
BB

Fimman

Jæja, þá get ég loksins bloggað. Þetta er búið að vera mikið vesen en Bretarnir eru með XC230 kerfið svo að ég þurfti að tengja framhjá til að komast inn á XP220 kerfið sem við erum með heima. Vonandi að eftirlitið fyrirgefi manni. Hér koma 5 gullmolar um mig.

Í fjölskyldunni minni er ég alltaf kallaður Jonni.

Þegar ég var 6 ára æfði ég samkvæmisdans. Ég var orðinn virkilega fær í cha cha cha og fugladansinum en þá tók fótboltinn yfir líf mitt. Á þessu danstímabili var ég alltaf klæddur í rúllukragabol og með greitt til hliðar

Ég hef tvisvar verið látinn bíta í sápu. Þegar ég var yngri fannst foreldrum mínum orðbragð mitt ekki sæma fjölskyldunni og brugðu því á það ráð að neyða mig til að jampla á sápustykki. Tunguþvotturinn tókst ekki alveg í fyrra skiptið en ég snarhætti að blóta eftir það síðara.

Þegar ég var í Grandaskóla kom það fyrir að móðir mín þurfti að sitja með mér í tímum. Hún fékk þá stól aftast í kennslustofunni og var svo með mér í frímínútum. Þetta var gert til að koma í veg fyrir slæma hegðun mína en eins og oft áður þá lærði ég ekki af reynslunni og þurfti mamma að koma nokkrum sinnum í skólann með mér.

Ég hef spjallað við Gittu Haukdal. Man reyndar ekki alveg um hvað en Coolio hlýtur að muna það.


Ég er svo að hugsa um að klukka íslenska víkinginn Sven og Dabba Örn.

Friðarkveðjur
Sigurjón

fimmtudagur, október 06, 2005

Fimm um Inga

Mér skilst að ég hafi verið klukkaður af davido, svo hér koma fáeinar tilgangslausar staðreyndir um mig.

1. Mömmu minni þykir voðalega gaman að halda upp á allskonar dót um börnin sín og á þessvegna á vísum stað upplýsingar um hæð og þyngd barnanna sinna frá fæðingu (held ég). Einhvern tíma fyrir all mörgum árum (8-10 árum) var ég að skoða þetta og ákvað að plotta upp hæð okkar systkinanna sem fall af aldri (skrítið að ég hafi endað í verkfræði) og komst þá að þeirri skemmtilegu staðreynd að ég hef aldrei tekið neinn vaxtarkipp heldur bara alltaf vaxið (ó)eðlilega hratt jafn og þétt. Ég kunni reyndar ekki þá að reikna út hallatölu en það hefði verið mjög gaman:)

2. Ég á besta borðið á bókasafninu á VRII skólaárið 2005-2006

3. Ég er ömurlegur í öllum íþróttum sem leikið er með kúlulaga hluti, en ég á 110 kg á power clean-i og það eru aðeins 5 Íslendingar sem hafa hlaupið hraðar 110 metra grindahlaup en ég til að bæta það upp.

4. Þegar ég er að keyra hlusta ég nánast alltaf á Rás 1 og geri aðrir betur.

5. Mér finnst tómmatar ógeðislegir og ég get næstum ælt þegar ég borða þá.

Klukka hér með Dabba Tryggva og Huldu.

mbk. IS:Þ

Úpps...

Gleymdi að ég ætla að klukka Einar Eiðs og Hrafn

hilsen, Sif

Klukkið hennar Sifjar

1. Ég er ótrúlega óskipulögð og fljótfær.

2. Ég gæti aldrei í lífinu haldið á hamstri, ketti, kanínu o.s.frv. Mér finst líka sérstaklega ógeðslegt þegar kettir strjúka sér upp við mann.

3. Ég borða ekki hafragraut og soðnar rúsínur.

4. Ég dýrka sterka brjóstsykra með pipardóti inn í.

5. Ég hlusta á allt frá Halla Reynis upp í Franz Ferdinand.

miðvikudagur, október 05, 2005

Klukkið hans Davíðs Þórs Magnússonar

1. Ég hef pissað yfir yngri bróðir minn þveran og endilangan án þess að hann gerði nokkuð í því! Reyndar vorum við báðir sofandi þegar þetta gerðist. Mamma koma aðeins of seint inn í herbergi því ég var nýbúinn að klára, átti bara eftir að hrista. Það var ekki góð lykt í herberginu daginn eftir...

2. Ég fæ stundum súkkulaðikast! Það lýsir sér í því að ég treð í mig súkkulaði þar til mér verður bumbult... þá fæ ég mér vatn að drekka og held svo áfram að troða í mig. Þetta ferli endurtekur sig yfirleitt þar til allt sem inniheldur kakó á heimilinu er uppurið.

3. Ég er ábyrgur ökumaður og hef aldrei lent í óhappi... nema einu sinni. Þá keyrði ég utan í glænýjan 5 milljón króna bílinn hjá tengdó. Mjög óheppilegt.

4. Ég þoli ekki hiksta. Sérstaklega þar sem hann er algerlega tilgangslaus. Hiksti er jafn ömurlegur og hnerri er góður.

5. Á mínum yngri árum rak ég túttubyssuverksmiðju. Ég var svo heppinn að pabbi var rafvirki (nóg til af rörum og teipi) og mamma var verkstjóri í fiskvinnslu (nóg til af gúmmíhönskum). Stoltastur var ég af tvíhleypunni minni sem hitti alltaf í mark. Framleiðslunni lauk skyndilega þegar ég var næstum búinn að blinda lítinn strák. Hann hélt nú auganu en ég missti verksmiðjuna... helvítis krakkarassgat!



Ég klukka Inga Sturlu og Sigga pabba^2

Sjonni!

Hvernig var það, var ekki búið að klukka þig?

Kveðja,
Eftirlitið

þriðjudagur, október 04, 2005

Klukkið hans Þorsteins

1. Helsta átrúnaðargoð mitt var alltaf Magnús Scheving og er það ábyggilega eini maðurinn sem ég á eiginhandaráritun með, ég stefndi alltaf á að vera eins og hann og hefur það ekki alveg gengið eftir eins og sést.

2. Þegar ég var yngri þá safnaði ég skordýrum með Grétari úr Hlíðunum sem örugglega nokkur af ykkur kannast við. Við urðum hins vegar fljótt leiðir á að safna og fórum því að setja skordýr í umslög og inn um bréfalúguna hjá fólki, við settum líka skordýr í þvottinn hjá fólki og ég er ekki frá því að nokkur íslandsmet í 100m hafi verið sett í þessum aldursflokki þetta árið.

3. Ég hef einu sinni sett í þvottavél í lífinu og verð ábyggilega ekki settur í það í bráðinni hér heima.

4. Ég og bróðir minn vorum miklir grallarar þegar við vorum yngri, við fengum eitt sinn að fara einir út með golfkylfu þegar við vorum í sumarbústaðaferð með fjölskyldunni, það reyndist ekki mjög góð hugmynd. Við byrjuðum reyndar á að fara í berjamó þar sem eyrun á mér voru troðin út af berjum og síðan fórum við í golf þar sem ég fékk golfkylfuna í hausinn í fyrsta höggi, sem var reyndar ágætt því mér var orðið ansi illt í eyrunum. Ég mæli ekki með berjum upp í eyru ég held að það sé betra að fá gofkylfu í hausinn svo ef þið þurfið að velja takið þá golfkylfuna.

5. Ég þoli ekki þegar ég er í klippingu og sá sem klippir mig fer að brydda upp á einhverjum samræðum bara til að segja eitthvað, fór t.d. til sömu hárgreiðsludömunnar 3 í röð áður en ég gafst upp á að heyra um að sonur hennar hefði tekið þátt í idol og heyra hana lýsa einhverri eðlisfræðitilraun sem hún tók í grunnskóla sem hún hélt að ég hefði áhuga á því ég var í verkfræði.

Ég klukka að sjálfsögðu Jón Atla og Sigga sambucca(aka kalkúnninn, aka geddusnyrtirinn, aka siggi gítar, aka s.afi)

mánudagur, október 03, 2005

Klukkið hans Bergs

1. Ég er með bíladellu á nokkuð háu stigi, en ek samt ennþá um á fyrsta og eina bílnum sem ég hef átt, ef bíl skyldi kalla. Hef reyndar átt tvo vélsleða.

2. Á Íslandsmeistaramótinu í fótbolta í 5. flokki (11-12 ára) á Laugavatni var keppt í knattleikni. Ég lenti í öðru sæti af nokkur hundruð gaurum. Ég æfði mark en var, þó ég segi sjálfur frá, ansi teknískur, gat t.d. haldið á lofti 250 sinnum og skallað 30 sinnum. Þetta sama sumar var ég valinn efnilegastur í 5. flokki karla hjá KA. Að sjálfsögðu tók ég þá lógísku ákvörðun að hætta á toppnum og hef ekki mætt á æfingu eftir þetta glæsta sumar. Glöggir hafa eflaust tekið eftir því að það er ansi djúpt á þessari knattleikni í dag.

3. Ég nota skó númer 41.

4. Í fyrsta skipti sem ég fór í bíó sá ég Kærleiksbirnina. Það er stutt síðan ég hætti að fá martraðir eftir þessa hræðilegu lífsreynslu, vondi karlinn var scary kvikindi!

5. Ég veit um fátt betra en að sofa og á það til að sofna á ólíklegustu stöðum. Ég snúsa alltaf a.m.k. 3svar sinnum áður en ég fer á fætur og sofna yfirleitt á milli snúsa. Ég á mjög auðvelt með að sofa í flugvélum og bílum ef ég er ekki að keyra. Ég hef reyndar einu sinni dottað á vélsleða í kolsvarta myrkri og brjáluðu veðri uppi á Vatnajökli eftir 5 daga langan túr og mikinn akstur. Ég sofnaði í bíó á Star Wars: Episode III í sjúklega flottu bíói á Times Square. Hrökk síðan upp í miðju hasaratriði við það að Star Wars fanið Arnar Hjartarson gaf mér olnbogaskot í síðuna.

Ég klukka Davíð Þór Magnússon og Örnu Lind. Að lokum vil ég minna á Bandýið annað kvöld og legg til að Bandý verði hér eftir alltaf skrifað með stóru Béi.

Klukkið hennar Þórhildur

1. Ég mátti ekki fá barbídúkkur þegar ég var lítil, mamma mín var á móti þeim, fyrstu barbídúkkuna fékk ég í sex ára afmælisgjöf. Þá var mamma búin að gefast upp, svo í framhaldinu eignaðist ég tvo Ken og tvö barbíbörn svo þetta var frekar afbrigðileg barbífjölskylda.

2. Ég horfi lítið á sjónvarp, sérstaklega á svona seríur. Ég hef ekki séð nema kannski svona 10 þætti af sex and the city og örlítið fleiri af friends. Ég veit að sumum finnst það jaðra við glæp!!

3. Ég átti heima í danmörku þegar ég var lítil og það eina sem ég man eftir því er þegar köttur kom inn til okkar og fór upp í rúmið mitt. Ég varð ótrúlega hrædd, mér hefur síðan aldrei líkað sérlega vel við ketti eða bara hvaða gæludýr sem er, reyndar fyrir utan kanínuna sem við eigum núna.

4. Ég hef úrið á hægri hendi, veit ekki af hverju. Ætli ég hafi ekki bara sett fyrsta úrið mitt á hægri hendi og það hafi verið þar síðan.

5. Ég elska að skó og töskur. Þó sérstaklega skó og á ég þó nokkur pör. Ég kaupi samt ekkert rosalega oft skó en ég á þá yfirleitt mjög lengi.

Ég klukka Þorstein og Adda Inga

Kv Þórhildur

Klukkið hennar Möggu

1. Á hinu mikla NBA körfuboltaskeiði (1993) tók Magga litla auðvitað þátt í körfubolta á hverju kvöldi með krökkunum í hverfinu. Hún varð fljótlega þekkt sem Rodmann þar sem mikil harka og mikil þrjóska einkenndi leik hennar.

2. Magga var með þeim fyrstu sem fékk Nintendo leikjatölvu við mikla öfund vina hennar. Hún hefur klárað allar útgáfur af Super Mario Bros!

3. Daman er svo gleymin að mögulegt væri að hún gleymdi hvað hún héti ef það stæði ekki á skilríkjunum. Hún fékk það hlutverk í grunnskóla að vera kladdavörður þ.e. sjá til þess að kladdinn fylgdi bekknum í hin ýmsu fög í mismunandi stofum. Skemmst er frá því að segja að hún missti alltaf af fyrstu fimm mín. hvers tíma þar sem hún þurfti að hlaupa og ná í kladdann þar sem hann gleymdist.

4. Magga er líka mikill klaufi. Ekki líður sá dagur sem hún rekur sig ekki í dyrakarma, borð, hillur, bíla eða tekst að hrasa eða skráma sig á annan hátt. Af þessum sökum er hún alsett litlum örum og er ætið með slatta af skráum og marblettum.

5. Hún keypti sinn fyrsta bíl 3 mánuðum áður en hún fékk bílpróf en lét bara kallinn keyra.
Nú hefur hún átt samtals 3: Peugot, blár (árg. ´89), Clio, gulur (árg. ´01) og Focus, grænn (árg. ´03).

Síðan vil ég lýsa ánægju minni með þetta þar sem ýmis sérviska mín er greinilega ekki einstök, t.d. með stafsetningu og appelsínudjús :)

Ég klukka Ásdísi og Sif.

laugardagur, október 01, 2005

Klukkið hans Adda Hjartar

Fimm tilgangslausar staðreyndir:
  1. Ég þoli ekki appelsínudjús eins og hann kemur úr fernunni. Ég verð að þynna hann með vatni, annars finnst mér eins og ég sé að drekka sýru.
  2. Ég fékk aldrei körfuboltaæðið þegar það gekk yfir ísland. Hinsvegar fékk ég nett Turtlesæði eftir að hafa séð turtles 1. Hápunkti æðisins var náð þegar ég sannfærði vini mína og aðra krakka í hverfinu um að stofna leynifélagið "Turtles".
  3. Eina skiptið sem ég man eftir að hafa gert mikla uppreisn gegn foreldrum mínum var þegar ég ákvað 5-6 ára gamall að ég ætlaði að vera KR-ingur. Það stóð ekki yfir lengi sem betur fer... Áfram Valur!
  4. Eitt helsta markmið mitt í lífinu er að geta hreyft eyrun. Ef ég sést einhverntíman stara út í loftið, að því er virðist í djúpri hugsun, þá er ég bókað að reyna að hreyfa eyrun... Það hefur ekki gengið ennþá.
  5. Þegar ég var lítill safnaði ég allskonar málmdrasli sem varð á vegi mínum. Vasarnir á úlpunni minni voru alltaf fullir af skrúfum,nöglum, skinnum osfrv. Planið var alltaf að byggja einhverskonar ofurvél þegar ég hafði nóg af dóti og í herberginu mínu átti ég kassa fulla af ýmiskonar "íhlutum" í vélina... Mér hefur verið lýst sem óvenju skítugu barni á þessum tíma.

Ég klukka Begga, eða B.B. King eins og hann vill láta kalla sig þessa dagana og Þórhildi.