Hér koma fimm súkkulaðimolar um mig
Ég og frændi minn vorum skírðir saman, Gunnar Birnir og Gunnar Sigvaldi, einhverjum datt þá í hug að sniðugt væri að kalla okkur Gú Binna og Gú Silla og hélst sú nafngift allt allt allt of lengi.
"My first taste of fame" kom strax á unga aldri. Tekin var mynd af mér og henni dreift á alla leikskóla á höfuðborgarsvæðinu til að auglýsa dagvist barna eða e-ð. Á þessari mynd skarta ég þessu líka fína tagli (80´s) og er að mála með vinstri hendinni. Eftir þessa auglýsingaherferð fannst mér ég hafa toppað og hef því látið módelbransann eiga sig síðan þá. Það voru gerð samskonar plaggöt með einum eða tveimur öðrum krökkum og ég held að annað þeirra gæti hugsanlega lesið þetta blogg (þó ekki alveg viss).
Þegar ég var fimm ára plataði ég einhvern leikskólafélaga minn til að strjúka með mér af leikskólanum. Förinni var heitið heim til mín, a.m.k. kílómetra frá leikskólanum!! Þegar þangað kom kommst ég að því mér til mikilla vonbrigða að enginn var heima, hélt að mamma væri bara að chilla heima á daginn. Til að toppa þessa fýluferð komst ég að því þegar við komum aftur á leikskólann að einhver hafði átt afmæli og ég fékk enga köku því ég var svo óþekkur.
Þegar ég var lítill var ég alltaf burstaklipptur, þetta er eftir að taglið var látið fjúka (90´s). Mér líkaði þó aldrei vel við klippinguna en þar sem ég hélt að burstaklipping þýddi að hárin væru burstuð af hálsi og öxlum eftir klippinguna lét ég það vera. Það var ekki fyrr en ég bað um að fá burstaklippingu nema með hárið síðara sem merking orðsins var útskýrð fyrir mér. Ég hef því þurft að nota undanfarin ár í að ná upp meðallengd hárs míns.
Fyrir ca. 2 árum vatt Friðrik Þór Friðriksson sér upp að mér. Þetta kvöld var ég aldrei þessu vant bara nokkuð góður á því, það sama verður ekki sagt um Friðrik. Hann heilsaði mér og spurði mig hvað ég væri að gera þessa dagana. Þegar ég sagði honum að ég væri nú bara að læra verkfræði tilkynnti hann mér að það væri tóm vitleysa, ég ætti heima í kvikmyndum. Ég var náttúrulega svolítið upp með mér og spurði hann hvort hann gæti þá ekki hjálpað mér eitthvað í þeim efnum. Hann varð þá mjög skrítinn á svipinn, leit á úrið sitt og sagðist þurfa á þjóta. Ég hef ekki séð hann síðan og var þetta því upphafið og endirinn á kvikmyndaferli mínum.
Að lokum væri gaman að klukka Jón Fatla og Krónprinsinn, hann Valíant okkar.
Kærlig hilsen
Gunni