Pulsusalarnir og Vélmennin

mánudagur, október 10, 2005

Klukkið hennar Örnu

Hérna koma fimm staðreyndir um mig.

1. Ég hef alltaf verið mjög nákvæm og akkúrat. Þegar ég var lítil gerði ég mömmu stundum alveg gráhærða þegar við vorum á leiðinni eitthvað út. Ég þurfti sko ALLTAF að hafa sokkana mína alveg hnífjafna. Þannig að ég settist á gólfið og togaði þá eins langt upp á sköflunginn eins og ég gat. Stóð svo upp og mældi. Ef þeir voru ekki jafnir þá settist ég aftur og reyndi aftur. Þetta gat sko alveg tekið dágóðan tíma því eins og ég segi þá fór ég ekki út fyrr en sokkarnir voru HNÍFJAFNIR.
2. Mér fannst ekkert gaman að fara í leikskólann þegar ég var lítil. Mér fannst miklu skemmtilegra að fara bara í pössun til ömmu og leika mér þar í barbí. Það var nefnilega ekkert til eins flott og mikið barbídót á leikskólanum eins og ég átti. Þannig að ég tók upp á því að æla á morgnana áður en ég átti að fara í leikskólann til að þykjast vera veik og þá fór mamma með mig til ömmu.
3. Ég er með kaupæði. Ef mig vantar ekki eitthvað nauðsynlega þá finn ég mér eitthvað sem mig vantar. T.d. ef ég ákveð að mig vanti buxur sem gerist MJÖG oft þá er farið í bæinn og leitað. Oftar en ekki þá finn ég ekki akkúrat það sem ég er að leita að svo ég finn mér bara eitthvað annað eins og skó. Ég sé einhverja geðveika skó sem mig langar alveg ógeðslega mikið í en ákveð að mig vanti ekki því ég var upphaflega að leita mér að buxum. Leitin að buxunum heldur áfram og að lokum finn ég einhverjar buxur til að kaupa. Ég get samt ekki hætt að hugsa um skóna og sef varla því mig langar svo mikið í þá. Hugsa um þá í svona viku þangað til ég er búin að sannfæra sjálfan mig um það að mig virkilega vanti skó (og þá er ég búin að gleyma hversu mikið buxurnar kostuðu) þannig að ég fer og kaupi skóna. Hrikalega sátt.
4. Ég truflaðist úr hræðslu í hvert skipti sem myndbandið Thriller með Michael Jackson var sýnt í sjónvarpinu fyrir svona 15 árum síðan. Ég gat aldrei horft á það. Mér fannst svoooo ógeðslegt þegar hann breyttist allt í einu í úlf. Þegar hann varð loðinn og eyrun stækkuðu....oj ég fæ alveg hroll
5. Ég þoli engin ljós þegar ég er að fara að sofa. T.d. ef ég var að horfa á sjónvarpið upp í rúmi og það er ekki búið að slökkva alveg á því heldur bara með fjarstýringu þá logar smá ljós á því. Þetta þoli ég ekki og get ekki sofnað fyrr en það er búið að slökkva það. Samt get ég sofnað fyrir framan sjónvarpið.

Þá ætla ég að klukka Tryggvana tvo.

kv. Arna